Notice: Undefined index: theme in /var/www/virtual/betra.is/magnus/htdocs/includes/head.php on line 10

Notice: Undefined variable: pagetitle in /var/www/virtual/betra.is/magnus/htdocs/includes/head.php on line 63
Magnús - Kambfell í Djúpadal sumarið 1989
Magnús Már Magnússon
 

Kambfell í Djúpadal sumarið 1989

Í suðvestur frá miðsveit Eyjarfjarðar gengur allstór dalur og djúpur. Hann ber því nafn með rentu - Djúpidalur. Kringum hann eru 1200 - 1300 metra há fjöll, brött og hömrum girt hið efra. Dalurinn þykir skjólsæll, en vegna þess hve fjöllin eru há var sagt að ekki hefði sést til sólar á innsta bæ í um 18 vikur í svartasta skammdeginu. Þessi innsti bær hét Kambfell. Bærinn stóð á litlum hól á þeim stað þar sem dalurinn klofnar í nokkra smádali. Suður af bænum gengur Djúpidalurinn inn en heitir reyndar Hvassafellsdalur vestan megin ár. Vestan við Djúpadal/Hvassafellsdal gengur Hraunárdalur. Fyrir vestan Hraunárdal er Hagárdalur og er Kambfellsfjall á milli þeirra. Bærinn stendur undir fjallsöxlinni og skammt fyrir neðan hólinn rennur Djúpadalsá. Á þessum stað fæddist afi minn, Magnús Stefánsson, hinn 9. apríl árið 1907. Hann hefði því orðið 100 ára á þessu ári. Einn góðan veðurdag sumarið 1989 fóru nokkrir fjölskyldumeðlimir á þessar slóðir, en mig hafði lengi langað til að koma á þennan stað, enda hafði afi sagt mér margt frá  æskuárum sínum í Kambfelli. Þangað inneftir var aðeins jeppafært þótt í dag sé hægt að keyra þetta á fólksbíl. Faðir Axels mágs míns átti 7 manna L300 bíl með drifi á öllum hjólum og ég átti að sjálfsögðu títtnefndan Suzuki smájeppa sem töggur var í. Við fórum á fleiri bílum inn í Litla-Dal þangað sem fólksbílafært var, en ferjuðum svo fólkið inneftir á þessum tveimur jeppum. Síðasta spölinn að Kambfelli var mýri ein mikil sem náði alveg fram í ána. Þá kom sér vel að Suzuki var léttur og því var hægt að keyra með gamla fólkið alveg upp að tóftum bæjarins. VIð drukkum nesti í gömlu baðstofunni, eins og sést á meðfylgjandi myndum, og afi sagði okkur vitanlega frá húsaskipan og öðru því sem tengdist bænum og lífinu þar á fyrsta áratug tuttugustu aldar. Við röltum einnig um næsta nágrenni, fórum aðeins uppeftir ánni, að Gerðishólum þar sem Kambfellsbóndi hafði hesthús. Gömlu hjónin nutu sín vel. Þau tylltu sér á einn bæjarvegginn og sátu þar lengi, og eflaust hafa mörg minningabrot farið um huga afa gamla þar sem hann horfði yfir hinar gömlu leiklendur. En myndirnar tala sínu máli.

     
  Kambfell/kambfell1.jpg  Kambfell/kambfell2.jpg 
 

Frá vinstri: Jóhanna Magnúsdóttir, móðursystir mín, Guðrún amma mín, Ragna Björg móðir mín, Magnús faðir minn, Magnús Stefánsson afi minn, Hanna Guðrún systir mín, Axel mágur minn, Finnur Viðar móðurbróðir minn og loks undirritaður. Litlu dömurnar fremst eru Guðrún Arngrímsdóttir og Anna Rós Finnsdóttir.

 Séð frá Kambfellsbænum út Djúpadal. Fjöllin í austanverðum
Eyjafirði sjást fjærst.
 
  Kambfell/kambfell3.jpg  Kambfell/kambfell4.jpg 
 

 Nesti snætt í "baðstofunni" í Kambfelli.

   
  Kambfell/kambfell5.jpg  Kambfell/kambfell6.jpg 
 

 Horft inn Djúpadal.

  Finnur Viðar og Anna Rós 
  Kambfell/kambfell7.jpg  Kambfell/kambfell8.jpg 
 

 Horft niður á Kambfellsbæinn

      Amma og afi, Guðrún Björg Metúsalemsdóttir
     og Magnús Stefánsson
 
  Kambfell/kambfell9.jpg Kambfell/KAmbfellMap.jpg 
 

Við hesthústóftirnar á Gerðishólum. Jóhanna móðursystir, Axel mágur og Hanna Guðrún systir mín. Örvar sonur Jóhönnu í dyragættinni.

   
     
     
     
     
     
     
     
     

Leggja orð í belg
1 hefur lagt orð í belg
10.11.2007 13:08:48
Að fortíð skal hyggja
Sæll sonur. Gaman var að rifja upp ferðalagið góða i Djúpadalinn þegar litla Súkkan kom að frábærum notum og hún flaut yfir Kambfellsmýrarnar og afi þinn varð ungur í annað sinn. Hafðu heila þökk fyrir frásögnina. MA
Þetta lagði Magnús A í belginn