Notice: Undefined index: theme in /var/www/virtual/betra.is/magnus/htdocs/includes/head.php on line 10

Notice: Undefined variable: pagetitle in /var/www/virtual/betra.is/magnus/htdocs/includes/head.php on line 63
Magnús - Ferð í Fjörður sumarið 1989
Magnús Már Magnússon
 

Ferð í Fjörður sumarið 1989

 

Ég sagði frá því í pistlinum um ferðina út á Flateyjardal að sumarið 1989 hefði ég farið nokkrar ferðir á jeppakrílinu mínu út fyrir veg. Fyrst við fórum út á Flateyjardal þá hvarflaði hugurinn aðeins vestar á skagann, en þar liggja eyðifirðirnir Hvalvatnsfjörður og Þorgeirsfjörður. Við feðgar völdum góðan veðurdag þetta sumar, en ekki man ég lengur dagsetninguna, þótt líklegt megi telja að frekar hafi verið liðið á sumar en hitt. Það helgast af því að svæði þetta er geysilega snjóþungt og vegurinn yfir Leirdalsheiði opnast þ.a.l. ekki fyrr en nokkuð er liðið á sumar. Oft ekki fyrr en seinnipart júlímánaðar. Beygt er af þjóðveginum í Höfðahverfi inn á jeppaveg (F 839) og eru um 27 kílómetrar til sjávar í Hvalvatnsfirði. Þótt kílómetratalan gefi til kynna að leiðin sé ekki ýkja löng, er hún býsna seinfarin, enda jeppavegur fyrst og fremst. Fyrst er farið um Leirdalsheiði, yfir Hávörður  og þaðan út dalinn, grösugan og talsvert breiðan. Gilsá kemur úr Trölladal og Austurá úr Lambárstykkjum og sameinast í  Fjarðará sem rennur um dalinn út í Hvalvatn úti undir sjávarkambinum. 

Skömmu áður en við komum að eyðibýlinu Gili, er komið að gili sem Illagil nefnist (sjá myndir). Þar er gömul brú og kannski ekki mjög traustvekjandi, en þar sem Suzuki var bæði lítill og léttur þurfti ekki að hafa áhyggjur. Ég  fór hins vegar úr bílnum og tók myndir af því þegar faðir vor ók yfir brúna. Upphaflega var þessi brú yfir Fnjóská hjá bænum Lundi. Þegar komið var niður á jafnsléttu komum við fljótlega að rústum bæjar sem heitir Kaðalstaðir. Þar var rekið nokkuð myndarlegt fjárbú á sínum tíma og hús m.a. steypt. Bærinn lagðist hins vegar í eyði árið 1933 eftir að snjóflóð hafði grandað öllum bústofni og fellt húsin. Þarna áðum við og nærðum okkur eins og sjá má á einni myndinni.

Áfram héldum við niður að ósi Hvalvatns. Þá keyrðum við eftir sjávarkambi en fyrir innnan hann er vatnið sem fjörðurinn dregur nafn sitt af. Ósinn er yfirleitt ekki væður en góð göngubrú er á ánni á móts við Tindriðastaði. Ég ákvað hins vegar að prófa og athuga hvort hægt væri að vaða ósinn, enda bússur með í för (sjá mynd). Það gekk ekki og ég snéri við. Vestan árinnar rís Þorgeirshöfði en Þorgeirsfjörður er vestan hans. Þar var fyrrum höfðuból sveitarinnar og kirkustaðurinn Þönglabakki. Hann fór í eyði árið 1944 og lauk þá búsetusögu þessarar sveitar. Í sveitinni voru kostajarðir, grösugar engjar, fjörubeit góð og mikill reki.  Á hinn bóginn gífurlegt fannfergi á hörðum vetrum og erfitt um alla aðdrætti. Skáldkonan Látra-Björg orti m.a. um þessa sveit. 

Fagurt er í Fjörðum
þá Frelsarinn gefur veðrið blítt,
heyið grænt í görðum,
grös og heilagfiskið nýtt,
en er vetur að oss gerir sveigja
veit ég enga verri sveit,
um veraldarreit,
menn og dýr þá deyja.
 

fj1.jpg 
Á Leirdalsheiði - Magnús A horfir niður í Hvalvatnsfjörð.
  fj2.jpg
   Keyrt yfir Illagil
   
fj3.jpg 
Illagil
  fj4.jpg
   
 fj5.jpg
Nesti borðað á Kaðalstöðum
  fj6.jpg
   Á Kaðalstöðum - horft út Hvalvatnsfjörð - Þorgeirshöfði
   
 fj7.jpg
Við ósa Hvalvatns
  fj8.jpg
   Ég reyndi að vaða yfir ósinn en varð að snúa við á miðri leið
   
fjordurKort.jpg   fj9.jpg
   Magnús A við ósa Hvalvatns - horft inn Hvalvatnsfjörð 
   
   
   
   
   

Leggja orð í belg
1 hefur lagt orð í belg
23.10.2007 13:40:18
Endurminningin merlar æ(tíð)
Gaman var að lesa þennan pistil,sonur. Vonandi eigum við eftir að endurtaka ferðina "med hele famelien" í góðu norðlensku veðri.
Þetta lagði Magnús Aðalbjörnsson í belginn